Sparnaðarráð

Kveiktu á LED perunni

LEDperaHver kannast ekki við að þurfa sí og æ að skipta um sprungnar ljósaperur? En ekki lengur. Nú er komin lausn. LED perur. Þær eru dýrari en glóperur, satt er það, en þær endast líka 25 sinnum lengur. Ólíklegt verður að teljast að LED pera sem skrúfuð er í perustæði í dag verði skrúfuð úr því aftur á meðan land byggist. LED perur springa nefnilega aldrei, heldur missa aðeins ljósmagnið eftir þúsund ár eða svo (eða næstum því).

Betri nýting. Glóperur er mjög ófullkomnar að því leyti að aðeins 5 til 10% af orkunni sem þær taka til sín verður ljós. 90 til 95% er hiti. Þessvegna bráðna flugur stundum sem setjast í ógáti á glóperur. Það er ef til vill ekki nema von að glóperurnar séu ófullkomnar, þær eru jú 135 ára gömul uppfinning. Það eru fá rafmagnstæki á heimilum í dag sem hafa dugað svo lengi. Orkan í LED perunum á hinn bóginn er 60% ljós. Þær hitna sem sagt miklu minna og nota miklu minni orku (færri vött fyrir sama ljósmagn).

Björt strax – ekkert kvikasilfur En sagan er ekki öll sögð með þessu, vegna þess að LED perurnar skína af krafti um leið og kveikt er á þeim. Það þarf ekki að bíða eftir að peran „hiti sig upp“. Hér er verið að tala um sparperurnar svokölluðu sem innihalda hið geðslega efni kvikasilfur. Sömu perur og Evrópusambandið vill innleiða fyrir alla muni. Slíkar perur eru eins og olíuskip, það tekur þær langan tíma að komast á skrið. Kvikasilfursperurnar eru margar hverjar þeirrar ónáttúru að það er ekki hægt að stilla birtumagnið frá þeim með dimmer. LED perurnar er hægt að dimma fram og til baka.

Það er ekki skemmtileg tilhugsun að brjóta óvart kvikasilfursperu, en eins og allir vita eru slíkar ljósaperur og glóperur meira en lítið brothættar. LED perurnar hafa vinningin hér líka vegna þess að þær eru ekki eins brothættar og ef þær skyldu brotna eru þær húðaðar með efni sem kemur í veg fyrir að glerbrotin dreifist út um allt.

Allir litir rófsins. Einn kosturinn enn við LED perurnar er að hægt er að velja perur með heitri birtu, kaldri birtu og litaðri birtu (allt litrófið). Stundum er hægt að koma mörgum eiginleikum fyrir í eini peru eða peruborða. Það má stilla peruna þannig að mismunandi díóður lýsi við mismunandi tækifæri. Heitt, kalt eða litað eftir stemmningunni það skiptið.

Fjarstýrðar perur. Nú eru komnar á markað LED perur sem eru með innbyggðum móttakara fyrir fjarstýringu þannig að það er hægt að kveikja og slökkva á perunum, auk dimma, með fjarstýringu, símanum eða yfir netið. Það er sem sagt hægt að kveikja og slökkva á ljósunum heima í Kópavogi frá Ástralíu.

Dýrar en fara lækkandi. Eini ókosturinn við LED er verðið. Verðið er hátt til skamms tíma, en lágt til langs tíma. Svo gæti farið að LED perur verði í framtíðinni hluti af búslóðinni þar sem þær eru fjárfesting og ástæðulaust að skilja slíka fjárfestingu eftir þegar flutt er. Verðið á LED perunum fer hríðlækkandi þessi misserin svo afsökunin um að skipta ekki yfir í LED verður sífellt veikari.