Sparnaðarráð

Drýgðu hakk ekki glæp

NautahakkGæðakokkarnir í Borgarnesi drýgðu nautahakkið ef til vill aðeins of mikið í bökunum sínum. Það er mjög skiljanlegt að þeir hafi viljað drýgja kjötið, kjöt er dýrt og ef hægt er að komast upp með að nota minna hakk í hakkréttinum er um leið verið að tryggja að pyngjan léttist ekki um of.

Hér eru þrjú ráð um hvernig drýgja má nautahakkið á tímum neikvæðs hagvaxtar, gjaldeyrishafta, fallandi gengis og verðbólgu.

Kartöflur. Stappaðu kartöflur og settu í hakkið. (Matarkarfan hefur tekið eftir að það er raunar gert við nautahakkið sem selt er í Krónunni og ef til vill fleiri verslunum.)

Grænmeti. Maukaðu grænmeti í matvinnsluvél. Það má til dæmis mauka kál, gulrætur, spergilkál, papriku og sellerí. Það má einnig setja maukaðar (niðursoðnar) linsubaunir eða soðin hrísgrjón.

Gamalt brauð. Rífðu gamla brauðið í smáa bita og hrærðu eggi og kryddum eftir smekk út í. Bollur og borgarar hanga betur saman með brauði út í og kjötið drýgist.

Hrossakjöt. Hrossakjöt er vitaskuld einnig kostur þegar drýgja þarf nautahakk. En til hvers? Af hverju ekki bara hafa hrossakjöt eða -hakk á borðum öðru hvoru? Íslendingar hafa alltaf borðað hrossakjöt, ólíkt til dæmis Bandaríkjamönnum sem leggja það sér ekki til munns frekar en hundakjöt.